Sjálfsmildi hér kem ég

Það er full vinna að vera í svona vitundarvakningu eins og ég hef valið að gera en það gefur mér svo mikið. Það gefur mér kraft og tilgang sem er svo gott. Ég vil því gjarnan halda þessari vinnu áfram en stundum þarf maður að sýna sér sjálfsmildi, taka sér frí og hlaða batteríin. Ég er alltaf að tala um hversu mikilvægt það er fyrir foreldra langveikra barna og bara alla auðvitað að sinna sjálfum sér eins og þeir geta. Nú ætla ég því að hlusta á sjálfa mig og taka mér smá frí. Ég ætla að leyfa mér að vera í fríi í sumar og koma svo fersk til baka í haust. 

Þessi ákvörðun leggst vel í mig því ég veit að ég er búin að vera dugleg undanfarin ár og ég veit hversu gott þetta verður fyrir mig. Að sama skapi veit ég að það verður pínu erfitt fyrir mig að sleppa tökunum því þegar maður er komin með eitthvað svona fast eins og þessa pistla vill maður ekki missa dampinn. Þegar maður finnur að þetta er að skila sér í betri vitund og fræðslu þá er svo mikill hvati að keyra á þetta. Maður má samt ekki vera eitthvað hræddur við að öll vinnan glatist þó maður skreppi aðeins frá. Ef maður keyrir sig í þrot með því að halda endalaust áfram og hvíla sig aldrei þá er þessu líka sjálfhætt. Það eru líka eflaust færri sem lesa þessa pistla mína á sumrin því það eru allir á ferð og flugi sem er bara yndislegt.

Jafnvel þó ég finni ekki beint fyrir þreytu þá ætla ég samt að leyfa mér að taka þennan tíma fyrir mig því eins og ég sagði þá veit ég hversu gott það mun gera mér. Er ekki ágætt að vera bara á undan vandamálinu? Við íslendingar erum ekki allt of góð í því held ég vegna þess að við keyrum svolítið mikið áfram. Ég hugsa samt að við Ægir munum dansa áfram í sumar því það gefur okkur einfaldlega svo mikla gleði og eru bestu stundirnar okkar. Það er eitthvað sem ég mun seint taka mér frí frá því meðan hann vill dansa við mig þá mun ég dansa við hann. Ég kveð ykkur í bili og óska ykkur góðs sumars með ævintýrum fyrir allan peninginn. Ég ætla að lifa og njóta með mínu fólki og hlakka svo til að sjá ykkur aftur í haust. Sjálfsmildi hér kem ég

Ást og kærleikur til ykkar


Saman erum við sterkari

Það er dásamlegt að sjá hvað margt frábært getur gerst þegar maður fer af stað með eitthvað, og er opin fyrir að vinna með öðrum. Þannig hefur það einmitt verið með föstudags fjörið okkar Ægis. Þegar við byrjuðum þekkti okkur auðvitað enginn og það var ekkert auðvelt að fá einhverja til að dansa með okkur fyrst um sinn. Ég get alveg skilið það, það eru ekki allir tilbúnir að fara að dansa á netinu með einhverjum ókunnugum. Það hefur aldeilis breyst og núna er fólk farið að vita um okkur og þar af leiðandi Duchenne og sjaldgæfa sjúkdóma sem er svo frábært. Nú er fólk farið að hafa samband við okkur og biðja okkur um að dansa með þeim.

Þannig var það einmitt í vikunni þegar foreldrar langveikrar stúlku höfðu samband við mig og vildu fá okkur í dans með þeim í skemmtilegu átaki sem þau voru með. Þau voru með fræðslu í skóla dóttur sinnar um hennar sjúkdóm og sögðu einnig frá okkur og því sem við erum að gera varðandi Duchenne og sjaldgæfa sjúkdóma og svo gerðum við dansmyndband saman. Þetta er svo ótrúlega fallegt finnst mér og ég myndi vilja gera miklu meira af þessu. Ég fékk alveg hlýtt í hjartað og það sem mér þykir vænt um að fá að gera þetta með þeim. 

Mér finnst þetta svo frábært því ég veit að saman getum við foreldrar langveikra barna gert svo góða hluti. Saman erum við sterkari og samvinna er líka bara alltaf af hinu góða.  Það er svo mikill kærleikur sem felst í góðri samvinnu með sameiginlegt markmið í hjarta og þar vil ég helst vera, í kærleikanum. Svo er auðvitað alltaf gaman að kynnast nýju fólki og ég hef kynnst alveg stórkostlegu fólki á þessu brölti okkar.  Með samvinnu geta líka miklu stærri og stórkostlegri hlutir gerst sem eru miklu vænlegri til árangurs.  Það hef ég sjálf reynt eins og með heimildarmyndina okkar, Einstakt ferðalag. Það verkefni hefði sennilega aldrei farið af stað og hefði klárlega ekki verið svona flott eins og ég veit að það verður ef ég hefði ætlað að gera það ein.

Það er auðvitað hægt að yfirfæra þetta líka á lífið almennt því alveg sama hvað við gerum þá er það klárt mál að saman erum við sterkari.

Ást og kærleikur til ykkar

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband